1997 Keyptum við rauðan gæðing sem heitir Bylur frá Hoftúnum sem var þá 14 vetra gamall.  Bylur var reiðhesturinn minn í mörg ár eða allt til 2006. Eftir það hefur hann verið hestur barnanna okkar fyrst Alexöndru svo Sturlu þangað til Embla tók við honum en hann var „hestur“ barnanna okkar allt til 2012 þegar hann fór á eftirlaun hjá okkur, enda búinn að skila sínu og gott betur. Bylur er núna 31 vetra gamall og er okkar höfðingi. Það eru forréttindi að hafa eignast þennan hest sem hefur reynst okkur svo vel og kynnt fyrir börnunum okkar undur þess að ríða út og eiga góðann félaga sem aldrei hefur brugðist. Bylur hefur alltaf verið skapmikill og skemmtilegur karakter og mikill vinur minn, þegar ég kem í hagann í Holti þá get ég kallað hann til mín og kemur hann þá til að fá brauðmola og klapp.  Ég held að þegar öllu er á botninn hvolft þá get ég með sanni sagt að Bylur er besti hestur sem hægt er að hugsa sér að eignast á lífsleiðinni. Og svona til gamans þá má geta þess að Bylur er undan Neista frá Skollagróf.

{gallery}2014/bylur1{/gallery}

Þessa sögu fékk ég senda frá henni Írisi sem var fyrsti eigandinn af Byl mínum.

„Bylur var fyrsti hesturinn minn og fullorðinn maður sem ég var hjá í húsi tamdi hann fyrir mig. Hann fór svo vel að honum í upphafi … klárinn stóð upp á endann fyrstu skiptin, prjónaði út í loftið.. og ætlaði sko EKKi að þýðast okkur 🙂 En hann Óli heitinn, beitti hann aldrei hörku… en lét hann heldur aldrei hafa betur… eftir að hann náði Byl loks frá húsinu í fyrsta sinn, reið hann bara nokkra metra… og kom heim aftur… Bara að láta klárinn vita að þetta væri ekkert hræðilegt. Daginn eftir stóð Bylur eins og þúfa og fór strax af stað en snarstoppaði þar sem hann hafði endað daginn áður og stóð þar uppá endann alveg snarvitlaus. Gamli maðurinn hætti ekki fyrr en hann náði honum af stað og hélt áfram… 4-500 metra og fór svo aftur heim. Bylur reyndi þetta einu sinni enn og svo ALDREI meir. En gamli maðurinn notaði aldrei pískinn á hann… "hann er svo viðkvæmur" sagði hann. "Það má ekki nota pískinn á þennan hest þó hann láti svona núna "… "þá snýst hann gegn mér". 😉 kveðja Íris“  (fyrsti eigandi Byls)
{gallery}2014/bylur2{/gallery}